Sagan okkar

Jöklarannsóknafélag Íslands var stofnað í nóvember 1950. Markmið þess er rannsóknir á jöklum og næsta nágrenni þeirra, eða eins og segir í 2.grein laga þess: “Markmið félagsins er að stuðla að jöklarannsóknum og ferðalögum á jöklum landsins, gefa út tímaritið Jökul, ásamt fréttabréfi og gangast fyrir fræðandi fyrirlestrum og myndasýningum”

Starf félagsins byggist á sjálfboðavinnu og hefur því tekist að virkja fjölmennan hóp áhugafólks. Sú samvinna vísindamanna og sjálfboðaliða sem er grundvöllur félagsins hefur skilað miklum árangri og eflt jöklarannsóknir hér á landi. Félagar í Jöklarannsóknafélaginu eru rúmlega 500.

Auk útgáfu Jökuls og að standa fyrir fræðslufundum, vinnur félagið einkum að markmiðum sínum með tvennum hætti:
– Með því að standa fyrir rannsóknaferðum á marga af helstu jöklum landsins, m.a. vorferð sem farin er árlega á Vatnajökul
– Með því að eiga og reka nokkra skála , einn á Langjökli en hina á og við Vatnajökul. Nánar má lesa um skála félagsins hér

Félagið hefur stundað mælingar á hopi og framskriði jökulsporða allt frá upphafi. Einstakir félagar hafa tekið einn eða fleiri jökulsporða í fóstur og mælt stöðu þeirra einu sinni á ári. Sporðamælingar JÖRFÍ eru besta heimildin um viðbrögð jökla á Íslandi við loftslagsbreytingum á 20. öld. Ýmsar greinar hafa verið ritaðar um sporðamælingar og sögu þeirra. Nokkrar greinar má sjá hér

Fyrsta vorferð Jöklarannsóknafélagsins var farin í júní 1953, í Grímsvötn og víðar um Vatnajökul. Hafa vorferðir verið farnar óslitið síðan. Í þessum ferðum hefur vatnshæð Grímsvatna verið mæld, vetrarákoma og fl. Hin síðari ár hefur umfang rannsókna aukist með bættri ferða- og leiðsögutækni. Nú er unnið að margháttuðum verkefnum í vorferðum félagsins og hafa rannsóknir á nýlegri gosvirkni í Vatnajökli einkum farið fram í þeim ferðum. Árlegar er rituð samantekt um helstu verkefni vorferðar og birt í Jökli, tímariti félagsins. 

Meðal stærri verkefna sem unnin hafa verið í ferðum á vegum félagsins eru borunin á Bárðarbungu 1972 þegar 415 m kjarna var náð úr jöklinum. Er það eina djúpborunin í íslenskan jökul. Einnig hófust íssjármælingar Raunvísindastofnunar í vorferðum félagsins á 8. áratugnum. Auk þessa studdi félagið umfangsmiklar jarðskjálfta- og þyngdarmælingar á vestanverðum Vatnajökli 1997-1999.

Til að geta staðið fyrir rannsóknaferðum á jökla hefur félagið lengst af átt snjóbíla. Á síðustu árum hafa jeppar tekið við sem aðalfarartækin á jökli. JÖRFÍ á nú og rekur breyttan Ford til jöklaferða.

Félagið reynir að standa fyrir fundum og erindum þar sem áhugavert efni tengt jöklum og nágrenni þeirra er kynnt.