Jökla-myndasögur
Í tilefni af alþjóðaári jökla 2025 (https://www.un-glaciers.org/en) fékk Jöklarannsóknafélag Íslands Rán Flygenring, rit- og myndhöfund til liðs við sig til þess að semja myndasögur um nokkur af verkefnum félagsins. Rán hefur á undanförnum árum vakið athygli og hlotið verðlaun fyrir að lýsa flóknum fyrirbærum og náttúruöflunum með einföldu myndmáli. Myndaseríurnar fjalla um það hvernig afkomumælingar á jöklum eru gerðar, hvernig sjálfboðaliðar félagsins bera sig að við jökulsporðamælingar og um hvað verkefnið Jöklasýn fjallar.
Hér er hægt er að nálgast upptöku af erindi sem Rán hélt á alþjóðadegi jökla 21. mars 2025 https://vimeo.com/1067307054
Afkomumælingar
Árleg afkoma jökuls er skilgreind sem breyting í massa hans á einu ári, frá hausti til hausts. Breytinguna má reikna sem mismun massasöfnunar að vetri og massataps að sumri. Vetrarafkoma er mæld með því að bora í gegnum vetrarlagið og sumarleysingin er lesin af stikum og vírum á haustin, sem skildir eru eftir í borholum að vori. Afkoma þriggja stærstu jökla landsins er mæld árlega í afkomuferðum sem farnar eru að vori og hausti sem oftast eru stórir leiðangrar þar sem bæði þarf sérhæfðan mannskap og tæki til að ferðast um jökulinn með öruggum hætti. Vegna umfangs er fjölda mælipunkta takmarkaður við nokkra tugi og velja þarf örugga staði fjarri sprungusvæðum og með nokkuð jafnri dreifingu eftir hæð svo þeir endurspegli afkomu alls jökulsins.
Jökulsporðamælingar
Árið 1930 hóf Jón Eyþórsson, veðurfræðingur og fyrsti formaður Jöklarannsóknafélags Íslands skipulegar mælingar á stöðu jökulsporða víða um land og fékk heimamenn til liðs við sig við mælingarnar. Hvert haust er mæld vegalengd að jökulsporði frá föstum viðmiðunarstað sem var upphaflega oftast merktur með vörðu og járnstöng. Frá stofnun félagsins árið 1950 hafa sjálfboðaliðar sinnt mælingunum. Sporðamælingarnar eru fyrstu samfelldu og kerfisbundnu mælingar á breytingum jökla á Íslandi. Mælingar hvers árs eru birtar í tímaritinu Jökli og á jöklavefsjánni.
Endurgerðarljósmyndir
Jöklasýn er samstarfsverkefni JÖRFÍ og James Balog, bandarískan ljósmyndara, sem gengur út á myndræna jöklavöktun til framtíðar. Valdir hafa verið ákveðnir staðir og sjónarhorn til þess að skrásetja breytingar á jöklum með þátttöku almennings og vísindafólks. Hugmyndafræðin er að gögn verkefnisins skapi sjónræna arfleifð til framtíðar og eru viðbót við hefðbundnar sporðamælingar félagsins.
