Sunnudaginn 9. júní lauk vorferð JÖRFÍ á Vatnajökul, þeirri 67. í röðinni, en fyrsta ferðin var farin 1953. Ferðin gekk mjög vel og okkur tókst að leysa af hendi öll verkefni sem áætlað var að vinna. Ferðin skiptist í fyrri og seinni hóp. Fyrri hópurinn var á ferðinni 29. maí – 4. júní, en sá seinni 4.-9. júní. Farið var um Skálafellsjökul en ekki Tungnaárjökul eins og venja er. Ástæðan er sú að Tungnaárjökull hefur hopað svo mikið að framan á síðustu árum að framan við hann er nú komin samfelld slétta með aurbleytu sem er ófær flestum farartækjum. Óvíst er hvernig verður á næstu árum, en vonandi finnst leið svo hægt sé að halda áfram ferðum um Jökulheima, enda er sú leið helmingi styttri frá Reykjavík en leiðin um Skálafellsjökul.

Þátttakendur voru samanlagt 39, þar af voru fimm manns allan tímann. Í ferðinni var vetrarafkoma mæld í Grímsvötnum, Háubungu og víðar. Miklar íssjármælingar voru unnar sunnan Báðarbungu og víðar. Jarðsjá var notuð til að kanna lagskiptingu í efsta hluta jökulsins, safnað var sýnum af jarðhitagasi, breytingar á jarðhita í Grímsvötnum og Bárðarbungu kortlagðar, þyngdarmælingar gerðar á Bárðarbungu, GPS landmælingar unnar á jökulskerjum til að fylgjast með landrisi vegna þynningar Vatnajökuls, veðurstöð var sett upp á Báðarbungu, vitjað var um jarðskjálftamæla og síritandi GPS tæki, m.a. á Öræfajökli. Að auki var flutt eldsneyti til að reka sendi Neyðarlínunnar sem hýstur er á Grímsfjalli.

Góð samvinna er milli Jöklarannsóknafélagsins, Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar Háskólans um rannsóknirnar. Landsvirkjun og Vegagerðin styðja þær, enda eru niðurstöður sem fást í vorferðum mjög gagnlegar fyrir alla sem þurfa að hugsa um öryggi innviða á svæðinu kringum jökulinn.

Í ferðinni var hægt að skoða nokkra kletta sem nú eru að byrja að koma upp úr ísnum vestast í Grímsvötnum. Þeir voru sýnilegir um og upp úr miðri síðustu öld en á seinni hluta 20. aldar gekk jökullinn mjög fram á þessu svæði þar sem jarðhiti minnkaði samfara óvenju lítilli gosvirkni. Frá og með árinu 1998 hefur sú þróun snúist við og jarðhitinn hefur vaxið á ný samfara nýjum eldgosum. Á myndunum sem fylgja má m.a. sjá klettana við Vatnshamar. Nánari skýrsla um ferðina mun birtast í næsta Jökli.

Magnús Tumi Guðmundsson