Vetrarákomumælingar í fullum gangi

Vorleiðangrar Landsvirkjunar, Raunvísindastofnunar HÍ og Veðurstofu Íslands standa yfir þessa dagana.

Langjökull var mældur dagana 19.-22. apríl af Sveinbirni Steinþórssyni, Hlyni Skagfjörð Pálssyni og Andra Gunnarssyni frá Landsvirkjun. Leiðangurinn hófst í aftakaveðri en gekk þó að óskum á þremur sólarhringum þó að enginn hefði farið úr að ofan að þessu sinni. Ákoma á Langjökul reyndist svipuð og síðustu ár. Farartæki mælingamanna var Boli, snjóbíll Hjálparsveitar skáta í Reykjavík.

hofsjok_bergur
Gufuborun fyrir afkomumælingastiku á Þjórsárjökli, Vilhjálmur S. Kjartansson til vinstri og Þorsteinn Þorsteinsson til hægri.

Árleg ákomumælingaferð á Hofsjökul var farin dagana 30. apríl til 6. maí. Vatnamælingar Orkustofnunar hafa séð um mælingar á Hofsjökli frá upphafi en Vatnamælingar voru sameinaðar Veðurstofu Íslands nú um áramótin og ferðin var því nú í fyrsta skipti farin undir merkjum nýrrar Veðurstofu Íslands. Þátttakendur í ferðinni voru Þorsteinn Þorsteinsson, Vilhjálmur S. Kjartansson og Bergur Einarsson, allir frá Veðurstofu Íslands. Farið var á jökul suðaustan megin frá Kvíslaveitum, upp Þjórsárjökul og yfir í Ingólfsskála norðan við Sátujökul en þaðan var gert út á vélsleðum. Ákoma á jökulinn var mæld í 25 punktum og var hún í meðallagi. Til marks um hopandi jökla þá eru þrír neðstu mælistaðir í mælilínum á jöklinum komnir alveg að eða fram yfir jökuljaðar svo að finna varð þeim punktum nýjan stað ofar á jöklinum.

vjok_hsp
Boli, svítan, sleðar og vaskir menn á Vatnajökli.

Vatnajökulsleiðangur hefur tafist nokkuð vegna óhagstæðra veðuraðstæðna en hófst föstudaginn 8. maí. Í þessum stærsta jöklamælingaleiðangri hvers árs eru boraðar 50 holur í gegnum vetrarsnjóinn og settir niður jöklavírar og stangir sem svo er lesið af að hausti. Þá eru settar upp fimm veðurstöðvar og viðhaldi sinnt á stöðvum og mælitækjum í Grímsvötnum, á Grímsfjalli og nyrst á Brúarjökli. Ekin vegalengd á jökli er um 360 kílómetrar. Leiðangursmenn verða fimm: Hannes Haraldsson LV, Finnur Pálsson RH, Þorsteinn Jónsson RH ásamt “gemlingunum” Sveinbirni og Hlyn sem áður voru nefndir. Leiðangurinn er væntanlegur aftur til byggða um eða uppúr 18. maí. Farartæki verða Boli-snjóbíll HSSR, Jöklagráni Hannesar og LV og tveir vélsleðar. Einnig er með í för “Svíta” Landsvirkjunar, átta metra langt skíðahús sem dregið er aftan í Bola.