Yfirlit yfir fréttir og færslur skrifaðar á vef félagsins

Nothing Found

Sorry, no posts matched your criteria

Vetrarákoma mæld á Mýrdalsjökli

Á laugardaginn var fór stór hópur jöklamanna á 10 bílum í mælinga- og skemmtiferð á Mýrdalsjökul. Tilgangur ferðarinnar var að bora þrjár afkomuholur og njóta þess jafnframt að vera á jöklinum. Færið neðst á jöklinum var verulega þungt en ofar á honum var færið prýðilegt og ferðin sóttist vel. Veðrið hentaði vel til vinnu en síður til útsýnisferða. Það gekk á með éljum og slyddu en vindur var hægur og góður andi í hópnum. Vel gekk að bora holurnar þrjár og líkt og í fyrra varð sú dýpsta 12 metrar þegar borinn náði loks niður á sumarsnjó síðasta árs. Hinar tvær holurnar voru 9 og 10 m á dýpt.

Jöklarannsóknafélagið við mælingar á Mýrdalsjökli
Mælt á Mýrdalsjökli

Afkomumælingar á Mýrdalsjökli

Nálgast nú hin árlega ferð unglingadeildarinnar á Mýrdalsjökul. Í fyrra fór vaskur hópur á vegum deildarinnar og boraði af mikilli list allt niður á 12 metra dýpi. Að þessu sinni er stefnan sett á dagsferð aðra helgina í maí. Ferðin er kjörinn vettvangur til að kynnast starfsemi JÖRFÍ og nýir félagar og verðandi því boðnir sérstaklega velkomnir. Veður verður engu síðra en rjóminn í fyrra: Skráning hjá Hálfdáni – halfdana (hjá) gmail.com / 865-9551.

Sumarferð JÖRFÍ – Kerlingarfjöll 27. – 29. júní 2008

Lagt verður í hann á föstudagskvöldi kl. 19 frá Select-bensínstöðinni við Höfðabakkabrúnna og ekið sem leið liggur í Kerlingarfjöll. Gist verður í tjöldum við Ásgarð og helginni varið í að skoða svæðið undir léttri jarðfræðileiðsögn Magnúsar Tuma Guðmundssonar. Heimkoma er ætluð síðdegis á sunnudegi.

Það verður gengið og ekið um svæðið eins og við á og því er nauðsynlegt að miða klæðnað við það að vera úti á göngu. Góðir skór, skjólfatnaður og nesti eru lykilatriði en annars þarf bara hefðbundinn búnað til viðlegu og útivistar á íslenskum fjöllum. Norparinn mun eflaust nýtast til að syngja í við varðeldinn þegar kólnar um kvöldið.

Farið verður á eigin bílum og þeir sem eiga ekki fjallfæra jeppa verður fundið sæti í annarra manna bílum en ætlast er til að þeir taki þá þátt í eldsneytiskostnaði. Það er mikilvægt að heyra hverjir eru bíllausir og hverjir verða á bíl og eru með laus sæti fyrir farþega, vinsamlegast takið slíkt fram við skráningu. Flestir smájeppar komast klakklaust í Kerlingarfjöll af Kjalvegi en aðrar leiðir nærri Kerlingarfjöllum er almennt færar stærri jeppum.

Skráning fer fram með tölvupósti: sumarferd (hjá) gmail.com eða í síma 894-5257 hjá Ágústi Hálfdánssyni.