Yfirlit yfir fréttir og færslur skrifaðar á vef félagsins

Nothing Found

Sorry, no posts matched your criteria

Ný stjórn JÖRFÍ og nýtt fólk í nefndir

Aðalfundur Jöklarannsóknafélagsins var haldin 22. febrúar síðastliðinn í Öskju, Náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands . Aðalfundarstörf fóru fram með hefðbundnum hætti eins og fyrri ár. Fundarstjóri var Tómas Jóhannesson og fundarritari Finnur Pálsson en gerður var góður rómur að þeirra störfum. Skýrsla stjórnar var flutt og endurskoðaðir reikningar lagðir fram. Magnús Tumi Guðmundsson hefur verið formaður félagsins í 24 ár en gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Hálfdán Ágústsson sem gegnt hefur mörgum hlutverkum í stjórn félagsins undanfarin ár gaf  ekki kost á sér til áframhaldandi starfa. Honum eru þökkuð góð störf fyrir félagið.  

Stjórn félagsins fyrir starfsárið 2022-2023 er eftirfarandi:

Andri Gunnarsson, formaður, Hrafnhildur Hannesdóttir, varaformaður, Guðfinna Aðalgeirsdóttir, ritari, Sjöfn Sigsteinsdóttir, gjaldkeri og Sigurður Vignisson, meðstjórnandi.

Varastjórn skipa Eyjólfur Magnússon, Kristín Jónsdóttir, Hlynur Axelsson og Þóra Karlsdóttir.

Stjórn félagsins vill koma á framfæri sérstökum þökkum til Magnúsar Tuma sem hefur veitt félaginu forstöðu í hartnær aldarfjórðung. Hann hefur sinnt málefnum félagsins með metnaðarfullum hætti alla sína stjórnartíð og haldið við þeim vanda og virðingu sem félagið hefur staðið fyrir. Magnús Tumi tók við keflinu í framhaldi af því að gosstöðvar í Vatnajökli létu mikið á sér kræla. Á næstu árum og áratugum voru gerðar miklar rannsóknir á samspili elds og íss og Magnús Tumi náði að virkja marga framhaldsnemendur og félagar JÖRFÍ fengu öflugt tækifæri til þess að vera þátttakendur í margvíslegum rannsóknum tengdum eldsumbrotunum.

Brátt mun stjórn skipa í nefndir á vegum félagsins og óskar hún eftir því að áhugasamir einstaklingar hafi samband. Endurnýjun í skálanefnd er fyrirsjáanleg og þau sem hafa áhuga á því að starfa við viðhald og þróun á skálum félagsins eru endilega hvött til að hafa samband við stjórn. Mörg spennandi hlutverk standa til boða. Einnig er verið að móta öfluga netnefnd sem mun halda utan um heimasíðu og  samfélagsmiðla félagsins.

Félagsgjöld JÖRFÍ hafa nú verið hækkuð lítillega frá síðasta ári. Félagsgjöldin verða kr. 8.000,- á þessu ári en nemenda- og fjölskyldugjald verður kr. 4.000,-. Greiðsluseðlar verða sendir út á næstunni. 

Við hvetjum alla til að hafa samband við stjórn í tölvupósti, stjorn@jorfi.is 

Stjórn JÖRFÍ

Vorfundur og opnun jöklavefsjár

Sunnudaginn 20. mars kl.14 verður ný Jöklavefsjá (islenskirjoklar.is) opnuð í stjörnuverinu í Perlunni. Helgi Björnsson og Oddur Sigurðsson jöklafræðingar opna Jöklavefsjána en auk þeirra munu sérfræðingar Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnunar Háskólans og Landsvirkjunar fjalla um jöklamælingar, sýna ljósmyndir af jöklum og fara yfir virkni vefsjárinnar og gögn sem hún sýnir. Að kynningum loknum mun Hilmar Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands bjóða gestum á sýningu safnsins, Vatnið í náttúru Íslands, og sérsýningu um sögu Jöklarannsóknafélagsins. Viðburðurinn tvinnar saman vorfund JÖRFÍ og síðbúna opnun á sýningunni í Dropanum um sögu JÖRFÍ sem sett var upp í tilefni af 70+1 ára afmæli félagsins síðastliðið haust.

Sjá  Opnun nýrrar jöklavefsjár | Facebook

Jöklavefsjáin birtir mælingar og yfirlit um rannsóknir og breytingar á íslenskum jöklum, þar á meðal sporðamælingar og gögn um útbreiðslu og afkomu jöklanna. Vefsjáin birtir einnig fjölmargar ljósmyndir frá mismunandi tímum. Samanburðarljósmyndir sem teknar eru á sama stað með sama sjónarhorni sýna skýrt breytingarnar sem eru að verða á íslensku jöklunum með sívaxandi hraða. Jöklavefsjáin er samstarfsverkefni Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnunar Háskólans, Landsvirkjunar, JÖRFÍ, Landmælinga Íslands og Náttúrustofu Suðausturlands. Hægt er að nálgast mæligögn og athuganir sem safnað er með reglubundnum hætti af innlendum stofnunum, fyrirtækjum, félagasamtökum og einstaklingum. Gagnasafnið verður uppfært jafnharðan og nýjar mælingar eru gerðar.

Streymt frá aðalfundi í kvöld.

Aðalfundur Jöklarannsóknafélags Íslands verður haldinn í kvöld, þriðjudaginn 22. febrúar 2022 kl. 20:00 í sal 132 í Öskju, Náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands.

Streymt verður frá fundinum fyrir kaffihlé, en ekki verður hægt að greiða atkvæði. Hlekkur á streymið: „https://eu01web.zoom.us/j/65541794022„.

Að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum og kaffihléi verður sýnd heimildakvikmyndin, “Hinn stóri samhljómur sandsins“ sem lýsir hinni stórbrotnu náttúru Breiðamerkursands. Myndinni verður hins vegar ekki streymt. Gunnlaugur Þór Pálsson er leikstjóri en hann er einnig höfundur ásamt Þorvarði Árnasyni. Framleiðendur eru Sjónhending og Loftslagssjóður. Í myndinni eru m.a. notuð kort og þrívíddargögn frá Jarðvísindastofnun Háskólans, Vatnajökulsþjóðgarði og Veðurstofu Íslands. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið og Loftslagssjóður styrktu gerð myndarinnar. Hægt er að sjá myndbrot úr hinum stóra samhljóm sandsins hér: „ https://vimeo.com/597439676„.