Yfirlit yfir fréttir og færslur skrifaðar á vef félagsins

Nothing Found

Sorry, no posts matched your criteria

Afmælisferð JÖRFÍ í Jökulheima

Nú styttist í afmælisferð félagsins í Jökulheima um næstu helgi. Tilkynna þarf um þátttöku í síðasta lagi annað kvöld, þriðjudagskvöld í tölvupósti eða í síma til Þóru Karlsdóttur (thorakarls@gmail.com, sími: 866-3370).

Í ferðinni munum við fara yfir sögu Jökulheima og hvernig Jöklarannsóknafélagið byggði þessa bækistöð fyrir Vatnajökulsferðir. Við skoðum sögu hörfunar Tungnaárjökuls frá því að hann náði lengst fram í litlu ísöldinni um 1880 og hvernig jöklar og eldvirkni hafa mótað þetta eyðilega en ægifagra svæði sem fyrir 100 árum var einn afskekktasti og minnst þekkti hluti Íslands. En ekki síst er ætlunin að eiga góðar stundir saman.  Á laugardag verður hátíðarkvöldverður að hætti Jökulheima, varðeldur o.fl.

Brottför er áætluð úr Reykjavík föstudaginn 31. ágúst kl. 17.  Lagt verður upp frá Vagnhöfða 25, aðstöðu Veðurstofunnar. Fari fólk fyrr af stað og hyggist hitti hópinn annars staðar þá má gjarnan láta fararstjóra vita.

Sameiginlegur kvöldmatur verður á laugardagskvöldið.  Pláss er í skálunum fyrir um 40 manns en einnig er hægt að gista í tjaldi.

Gistigjald í skála er 3000 kr./mann á nóttu eða 9.000 kr. / mann fyrir allar þrjár næturnar.  Kvöldmaturinn kostar 2500 kr./mann. Börn og unglingar 15 ára og yngri fá frítt, bæði í mat og í skála. Óskað er eftir að fólk láti vita hvort það ætli að gista í skála eða tjaldi. Greiða ber fyrir brottför á reikning: 525-26-110641, kennitala: 180653-2959. Farið verður á einkabílum og þeir sem ekki hafa bíl sem kemst með góðu móti inneftir fá far í öðrum bílum.

Nánar er fjallað um ferðina á vefsíðu félagsins:  https://jorfi.is

Nánar um sumarferð JÖRFÍ í Jökulheima um Verslunarmannahelgina

Í tilefni af 70 ára afmæli JÖRFÍ verður sumarferðin að þessu sinni á heimaslóðir félagsins í Jökulheimum um Verslunarmannahelgina, 31. júlí – 3. ágúst.

Farnar verða göngu- og könnunarferðir við allra hæfi og á laugardagskvöldið verður sameiginlegur hátíðarkvöldverður í öræfastíl. Gistipláss er í húsunum fyrir um 40 manns. Þeir sem það vilja geta tjaldað.

Umhverfis Jökulheima er stórbrotin og mikilúðleg náttúra sem mótuð er af eldgosum og jöklum. Á ísaldarskeiðum var hálendið löngum undir þykkum jökli. Þá mynduðust móbergsfjöllin sem einkenna þetta svæði, t.d. Bláfjöll, Gjáfjöll, Breiðbakur, Jökulgrindur, Heimabunga og Kerlingar. Á milli þeirra er landið þakið hraunum og söndum. Hraunin, sem sum eru mjög sandorpin, hafa runnið á síðustu 10.000 árum. Sandarnir eru myndaðir bæði af framburði jökuláa en efnið er líka gjóska úr stórum sprengigosum. Síðustu gosin af því tagi urðu 1477 þegar Veiðivötn í núverandi mynd urðu til (Veiðivatnagosið) og upp úr 870 (Vatnaöldugosið) þegar til varð gjóskulag sem finnst víða um land og nefnt er Landnámslagið. Sigdalir, gígaraðir og sprungur bera vitni um hvernig landið gliðnar vegna plötuhreyfinganna.

Haustið 1950 fundu Guðmundur Jónasson og fleiri bílfært vað yfir Tungnaá, Hófsvað, en þannig opnaðist ökuleið fyrir stóra fjallabíla inn á þetta afskekkta svæði. Í kjölfarið vaknaði hugmyndin um vorferðir, en fyrsta vorferð JÖRFÍ á Vatnajökul, um Hófsvað og Tungnaárjökul var farin 1953. Fyrsti skáli félagsins í Jökulheimum var byggður 1955, bílageymslan kom 1958, nýi skálinn var vígður 1970 og stækkaður 2010. Í ferðinni munum við minnast hinnar merku sögu jöklarannsókna og hlutverks Jökulheima í henni. Einnig munum við kynnast sérstæðri jarðfræði svæðisins, skoða ummerki um gos sem urðu undir ísaldarjöklum og hvernig Tungnaárjökull hefur hopað og breyst á síðustu áratugum.

Óskað er eftir að fólk tilkynni þátttöku í ferðina í síðasta lagi þriðjudag 28. júlí, til Þóru Karlsdóttur (tölvupóstur: thorakarls@gmail.com, sími: 866-3370). Innkaup í kvöldverðinn eru sameiginleg og mun Þóra gefa upplýsingar um hvernig skuli greiða kostnað. Farið verður á einkabílum. Leiðin inn í Jökulheima hentar ekki fólksbílum en er greiðfær fyrir alla jeppa og jepplinga. Þó svo að þú hafir ekki yfir jeppa að ráða er engin ástæða til að sleppa ferðinni. Reynt verður að finna öllum pláss í bílum.

Sumarferð JÖRFÍ í Jökulheima um Verslunarmannarhelgi

Við minnum á sumarferð JÖRFÍ sem verður farin í Jökulheima um Verslunarmannahelgina 31. júlí til 3. ágúst 2020. Við vonumst til að sem flestir mæti og gleðjist með okkur saman í sumarferð. Félagsmenn, vinir og fjölskyldur eru velkomin.