Lög félagsins

LÖG JÖKLARANNSÓKNAFÉLAGS ÍSLANDS.

Síðast uppfærð á aðalfundi 28.02.2023

1. grein
Félagið heitir Jöklarannsóknafélag Íslands (Iceland Glaciological Society), skammstafað JÖRFÍ. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. grein
Markmið félagsins er að stuðla að rannsóknum og ferðalögum á jöklum landsins, gefa út tímaritið Jökul, ásamt fréttabréfi og gangast fyrir fræðandi fyrirlestrum og myndasýningum.

3. grein
Félagar geta allir þeir orðið, er áhuga hafa á rannsóknum á jöklum og jöklaferðum. Félögum skal skipta í fjóra hópa:
        1. Almenna félaga
        2. Fjölskyldufélaga
        3. Heiðursfélaga.
        4. Námsfólk

4. grein
Stjórn félagsins skipa 5 aðalmenn og 4 til vara. Formaður skal kosinn sérstaklega til þriggja ára í senn. Meðstjórnendur skulu kosnir til tveggja ára í senn og ganga tveir þeirra úr stjórn ár hvert, en endurkjör er heimilt. Sama gildir um varamenn. Kosnir skulu tveir endurskoðendur til eins árs í senn. Stjórn skal kosin skriflega ef fleiri eru í kjöri en kjósa á. Stjórnin skiptir með sér verkum.

5. grein
Stjórnarfundi skal halda svo oft sem þurfa þykir, þó eigi sjaldnar en einu sinni í mánuði á tímabilinu frá 1. september til 31. maí og ennfremur ef þrír aðalstjórnarmenn æskja þess. Varamenn skal að jafnaði boða á stjórnarfundi. Stjórnarfundur er löglegur ef þrír aðalmenn sitja hann, enda hafi allir aðalmenn verið boðaðir. Á lögmætum stjórnarfundi ræður afl atkvæða um þær ákvarðanir sem teknar eru. Falli atkvæði jafnt skal atkvæði formanns ráða.

6. grein
Aðalfundur kýs þrjá félaga í valnefnd, sem hefur það hlutverk að fjalla um allar tillögur um kjör heiðursfélaga. Nefndina skulu skipa virtir félagar, sem verið hafa í félaginu eigi skemur en 15 ár. Nefndarmenn skulu kosnir til þriggja ára í senn, þannig að einn komi til kjörs ár hvert. Tillaga um kjör heiðursfélaga skal vera skrifleg, studd af tveimur eða fleiri félögum. Hún skal send stjórn félagsins, sem leggur hana fyrir valnefnd. Nefndin getur einnig átt frumkvæði að tillögu um heiðursfélaga. Stjórn félagsins skal halda að minnsta kosti einn fund á ári með nefndinni. Formaður félagsins leggur tillögur um kjör heiðursfélaga fyrir aðalfund til samþykktar. Þær verða að hafa hlotið einróma stuðning valnefndar og stjórnar.

7. grein
Reikningsár félagsins er almanaksárið og skal aðalfundur haldinn í Reykjavík fyrir 1. mars ár hvert. Skal hann boðaður með dagskrá sem send er rafrænt á skráða félaga að minnsta kosti 10 dögum fyrir aðalfund og er hann þá lögmætur, ef löglega er til hans boðað. Dagskrá aðalfundar er sem hér segir:
1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
2. Kjör heiðursfélaga, ef tillögur liggja fyrir.
3. Flutt skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins.
4. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins til samþykktar.
5. Lagabreytingar, ef einhverjar eru.
6. Kosning stjórnar samkvæmt 4. grein laga.
7. Kjör valnefndar.
8. Kosning endurskoðenda.
9. Önnur mál.

8. grein
Tillögur til lagabreytinga verða að hafa borist stjórn félagsins fyrir 1. febrúar og skulu þær birtar í aðalfundarboði.

9. grein
Félagsgjöld ákveður stjórn félagsins og er tímaritið Jökull innifalið í þeim. Fjölskyldufélagar greiða lægri árgjöld og er tímaritið Jökull ekki innifalið í þeim. Heiðursfélagar njóta sama réttar og almennir félagar en greiða ekki árgjöld.

10. grein
Stjórnin skipar, að loknum aðalfundi, í fimm aðalnefndir.
Þær eru:
1. Rannsóknanefnd 4. Ferðanefnd
2. Ritnefnd Jökuls 5. Bílanefnd.
3. Skálanefnd
Skipan stjórnar og nefnda skal birta á heimasíðu félagsins að loknum aðalfundi.

11. grein
Aðalfundur hefur æðsta vald í öllum málefnum félagsins. Meirihluti atkvæða ræður úrslitum mála nema hvað varðar gr. 13 og 15.

12. grein
Enginn getur falið öðrum að fara með atkvæði sitt á aðalfundi.

13. grein
Eigi má breyta eignaraðild félagsins að fasteignum eða tímaritinu Jökli nema með samþykki aðalfundar og þá aðeins að 2/3 hlutar greiddra atkvæða falli í þá átt.

14. grein
Eigi má slíta félaginu, nema það verði samþykkt á tveimur lögmætum fundum í félaginu, sem haldnir eru með minnst mánaðar millibili. Skulu þeir boðaðir á sama hátt og aðalfundur og fundarefni skýrt tekið fram í fundarboði. Verði félaginu slitið skulu skjöl þess og aðrar eignir renna til Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands, þeirrar deildar hennar sem fæst við jöklarannsóknir.

15. grein
Einungis aðalfundur getur breytt lögum þessum og þarf til þess 2/3 hluta greiddra atkvæða.