Mælt á Mýrdalsjökli

Laugardaginn 9. maí héldu félagar í Jöklarannsóknafélaginu til mælinga á Mýrdalsjökli. Eins og í fyrri ferðum var ætlunin að bora þrjár holur og kanna vetrarákomuna á jökulinn. Á jökulinn lögðu fjórir bílar, 10 mælingarmenn og einn jöklahundur.


Leiðangursmenn bora fyrstu holuna á Mýrdalsjökli vorið 2009 og Björn kyndir reyk(gufu)vélina. Mynd: Símon Halldórsson.

Veðurspáin gaf fyrirheit um að hvöss norðanáttin gengi niður þegar líða tæki á daginn og gekk það eftir. Hvasst og kuldalegt var á leið á jökulinn en mælt var í prýðisveðri allan liðlangan daginn er loks var komið inn á meginjökulinn. Færðin var hins vegar afar erfið og tók ferðin nú nær 20 klst m.v. 10 klst í fyrra en það gaf góð tækifæri til jöklasólbaða á meðan ekið var á milli mælistaða. Vel gekk að bora og mæla, og dýpt snjólags síðasta vetrar reyndist svipað og í fyrra eða um 9-12 m í öllum þremur holunum. Síðasta holan á Goðabungu var boruð í kvöldsólinni með stórkostlegt útsýni yfir Suðurland og Vestmannaeyjar.


Eiríkur og Hanna Kata munda borinn. Mynd: Símon Halldórsson.