Haustannir á Grímsfjalli

Síðustu viku septembermánaðar dvöldust fimm vísindamenn frá Edinborgarháskóla á Grímsfjalli. Tilgangurinn var að æfa notkun radartækja sem lesa ís og öskulög í jökli sem og jökulbotn og hugsanlega ísbráð neðanfrá. Hlynar tveir, félagar í JÖRFÍ voru fylgdar og aðstoðarmenn Edinborgara á tveimur bílum, Jöklarauð JÖRFÍ og jeppa Hlyns Snæland.

Í upphafi leiðangurs olli flughálka á Skálafellsjökli nokkrum töfum eða allt þar til Bjarni “jöklabóndi” Skarphéðinsson hafði með snjótroðara sínum opnað leiðangurstækjum braut í gegnum sprunguhaft á jöklinum. Ökufæri var með mestu ágætum eftir það. Degi tvö var eytt í “sovéti” á Grímsfjalli en á laugardagsmorgni hafði lægt og rofað nægilega til svo að hægt væri að stika út línu yfir annan ketilinn í norðuröskju Grímsvatna. Þennan dag og næstu tvo voru gerðar radarmælingar á katlinum en seinnipart mánudags var svo pakkað saman og haldið til byggða og var sú ferð tíðindalaus.

Á vatnajökli við radarmælingar með Bretum í september 2008

Á sama tíma stóð yfir haustmælingaferð LV og Raunvísindastofnunar og voru þáttakendur í henni fjórir. Allt valinkunnir Jöklafélagsjaxlar. Heldur gerði norðangarri og snjókoma mönnum lífið leitt í þeim leiðangri sem gekk þó stóráfallalaust.

Hlynur Skagfjörð Pálsson