Fyrirlestur Helga þriðjudaginn 20.10.

Fjarfundur JÖRFÍ þriðjudag 20. október kl. 20-21:
Helgi Björnsson – fyrirlestur JÖRFÍ: Ísland undir jökli
Aðgangur opnar kl. 19:45.

Hér er hlekkur á myndbandið: https://youtu.be/mSTqwJbpBxI.

Þriðjudaginn 20. október næst komandi kl. 20:00 mun Helgi Björnsson jöklafræðingur flytja erindi sem ber titilinn Ísland undir jökli. Eins og áður er erindið flutt rafrænt á Zoom en hlekkur á streymið verður sendur út samdægurs.

Ágrip fyrirlestursins Ísland undir jökli:

Frá miðjum áttunda áratug 20. aldar hefur landslag undir meginjöklum Íslands verið kannað með íssjármælingum; mældur er tíminn sem það tekur rafsegulbylgju að fara niður á botn jökuls. Alls hefur íssjáin verið dregin 16.000 km yfir jökul með snjóbílum, vélsleðum og jeppum. Að þessu verkefni hafa komið tugir jöklafara.
Niðurstöður þessara mælinga hafa nýst við ýmsar rannsóknir svo sem:
a) á ísforða jökla, ísflæði, viðbrögðum jökla við loftslagsbreytingum, rennsli jökulvatns til fallvatna, hlaup frá jökullónum og við eldsumbrot,
b) á jarðfræði Íslands, eldstöðvarkerfum og landmótun undir jöklum,
c) við mat á náttúruhamförum í jöklum,
d) við hönnun brúa yfir jökulvötn og nýtingu jökulvatns til virkjana.
Í erindinu verður lýst landi undir Vatnajökli, Langjökli, Hofsjökli og Mýrdalsjökli: öskjum, stöpum, móbershryggjum, hásléttum, dölum og ísfylltum trogum. Þótt allir íslenskir jöklar rýrni nú hratt mun ekkert okkar sjá allan botn þeirra á annan hátt en með íssjárgleraugum; allt á aðeins 45 mínútum!

Við hvetjum alla til að mæta á þetta spennandi erindi.