Doktorsvörn félaga í JÖRFÍ

Næstkomandi mánudag ver Hrafnhildur Hannesdóttir doktorsritgerð sína í jarðfræði við Háskóla Íslands. Verkefnið ber heitið: Breytingar á suðaustanverðum Vatnajökli – í fortíð, nútíð og framtíð (Variations of southeast Vatnajökull – past, present and future). Hrafnhildur er félagi í Jöklarannsóknafélagi Íslands og hefur m.a. tekið þátt í nokkrum vorferðum félagsins og setið í skemmtinefnd. JÖRFÍ og nokkrir félagar þess aðstoðuðu Hrafnhildi í hluta vettvangsrannsókna hennar, m.a. í vorferðum og í jöklagöngum þar sem leitað var ummerkja um mestu útbreiðslu skriðjökla í suðaustanverðum Vatnajökli.

Vörnin hefst kl. 9:00 mánudaginn 3. nóvember og andmælendur eru dr. Per Holmlund, prófessor við Stokkhólmsháskóla og dr. Astrid Ogilvie, Nansen-gestaprófessor í heimskautafræðum við Háskólann á Akureyri, vísindamaður við Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og vísindamaður við Institute of Arctic and Alpine Research (INSTAAR). Dr. Hreggviður Norðdahl, fræðimaður og staðgengill deildarforseta Jarðvísindadeildar, stjórnar athöfninni sem fram fer í Hátíðasal Háskóla Íslands.

Leiðbeinendur Hrafnhildar voru dr. Helgi Björnsson, vísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskólans og dr. Guðfinna Aðalgeirsdóttir, dósent við Jarðvísindadeild, en einnig sat í doktorsnefnd dr. Jón Eiríksson, vísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskólans.

Nánar um vörnina á vef Háskóla Íslands.