Almennur fróðleikur

Hér að neðan er ýmis fróðleikur um jökla sem tekinn hefur verið saman af

Helga Björnssyni og Hrafnhildi Hannesdóttur

FRAMHLAUP JÖKLA

Hraði jökuls getur verið um 10 cm/dag eða 30 m á ári. Hins vegar taka sumir jöklar skyndilega á rás og hlaupið hratt fram svo mánuðum skiptir. Hraðinn getur þá hundraðfaldast.

Framhlaup jökla verða vegna óstöðugleika í ísflæði, sem veldur því að mikill ísmassi getur á stuttum tíma flust frá svæði ofarlega á jökli og að jökuljöðrum. Við framhlaup berst mikill ís frá safnsvæði niður á sporð, jökull springur og mikið vatn flæðir út við jaðar.

Þeir jöklar sem hlaupa fram hreyfast ekki nægilega hratt til þess að bera fram jafnóðum snjó sem á þá safnast. Þeir verða því stöðugt brattari með hverju ári.
Framhlaup jökla eru algeng hér á landi og hlaupa allir skriðjöklar Vatnajökuls nema daljöklarnir sem falla austur af honum.

framhlaupsjöklar á Íslandi

SPRUNGUR

Sprungur myndast þegar tog rífur ísinn. Sprungur myndast þvert eftir jökulbungu þegar ísinn fer yfir ójöfnur í botni. Efsta sprungan getur verið varasöm ef gengið er niður jökulinn því að komið er að henni áður en sér fram af bungunni. Yfir hömrum eru ísfossar eða falljöklar. Jökulgap myndast við hamraþili ofan við jökulinn þar sem jökullinn losnar frá bergstálinu.

Þegar jökull skríður með fjallshlíð rifnar hann vegna núningsmótsstöðu svo að sprungur stefna um 45° upp á við frá hlíðinni. Nái sprungur frá báðum hliðum saman á miðjum jökli eru þær skeifulaga. Langsprungur myndast þegar jökull breiðir úr sér á láglendi.

Sprungur eru venjulega ekki dýpri en 20-30 m. Á því dýpi pressast ísinn saman undan eigin fargi. Dýpstar eru þær yfir kröppum ójöfnum og hættulegastar þegar þær leynast undir snjó á safnsvæðinu eða nýföllnum vetrarsnjó.

jökulsprungur

JÖKLAR Á ÍSLANDI

Ísland liggur á mörkum hlýrra og kaldra strauma í lofti og hafi. Landið er hálent og jöklar stórir. Jöklar á Íslandi sitja á hæstu og úrkomumestu svæðum landsins. Nánast allar gerðir jökla eru á Íslandi, frá hvilftarjöklum til jökulhvela og þeir eru allir þíðir. Úthafsloftslag á Íslandi veldur því að afkoma jökla er mjög háð breytingum í lofthita. Jöklar þekja um 10% af flatarmáli Íslands og taka við 20% af þeirri úrkomu sem fellur á landið. Þeir hylja virkar eldstöðvar, jarðhitasvæði og lón. Íslenskir jöklar eru flokkaðir sem þíðir. Þeir bregðast hratt við loftslagsbreytingum, ýmist ganga fram eða hörfa. Jöklarnir geyma ís og vatn sem myndar stærstu ár landsins. Þeir eru mjög virkir, hlaupa fram og jökulhlaup koma frá jarðhitasvæðum og vegna eldgosa undir jökli. Vegna áhrifa þeirra á umhverfið hefur áhugi manna á jöklum og atburðum tengdum þeim löngum verið mikill.

gervitunglamynd af Íslandi

Jöklarannsóknir

Jöklar eru mikilvægur hluti íslenskrar náttúru. Heildarflatarmál er nálægt 11 þúsund ferkílómetrum og um 20% af virku gosbeltunum liggur undir jökli. Vatnajökull er langstærsti jökull Íslands, rúmlega 8000 km2, Hofsjökull og Langjökull eru hvor um sig rúmlega 900 km2 að stærð og Mýrdalsjökull tæplega 600 km2. Aðrir jöklar eru töluvert minni.

Sögulegt yfirlit
Þórður Þorkelsson Vídalín (1662-1742), sem var starfaði lengst af sem læknir en var um tíma skólameistari í Skálholti, skrifaði ritgerð um íslenska jökla á latínu árið 1695. Fræðileg þekking var skammt á veg komin á þessum tíma og ber ritgerðin þess merki. Þórðarhyrna (1659 m) í vestanverðum Vatnajökli er nefnd eftir honum. Sveinn Pálsson (1762-1840) gerði merkar athuganir á náttúru Íslands og skrifaði sérstakt jöklarit. Þar lýsir hann jöklunum af vísindalegri nákvæmni. Hann var fyrstur manna í heiminum að setja fram þá skoðun að jöklar skriðu fram sem deigur massi. Því miður var Jöklaritið ekki gefið út fyrr en 1882, tæpri öld eftir að það var skrifað svo hugmyndir Sveins voru lengst af ókunnar öðrum náttúrufræðingum. Einstaka leiðangrar könnuðu jökla á 19. öld og fyrstu áratugum 20. aldar. Um 1930 hófust sporðamælingar Jóns Eyþórssonar (1895-1968). Upphaf skipulegra rannsókna á jöklum er hinsvegar oft tengt Sænsk-Íslenska leiðangrinum sem kannaði afkomu á austanverðum Vatnajökli á árunum 1936-1938. Leiðangurstjórar voru Hans W:son Ahlmann og Jón Eyþórsson. Meðal þátttakenda var Sigurður Þórarinsson (1912-1983), þá ungur landfræðinemi. Það kom í hlut Sigurðar að vinna úr rannsóknunum og birta niðurstöður þeirra. Hann sinnti jöklarannsóknum meðfram öðrum rannsóknum æ síðan. Næsta tilraun til skipulegra jöklarannsókna á Íslandi var 1942-1946 undir forystu Steinþórs Sigurðssonar en hann var á þessum árum framkvæmdastjóri Rannsóknaráðs Ríkisins. Þær rannsóknir voru á Vatnajökli og Mýrdalsjökli en ekki varð framhald á þeim eftir dauða Steinþórs í Heklugosinu 1947.
Jöklarannsóknafélagið var stofnað haustið 1950. Vorið eftir var farinn stór leiðangur á Vatnajökul í samvinnu við Franska vísindamenn. Verkefni Fransk-Íslenska leiðangursins var að mæla þykkt Vatnajökuls með endurkastsmælingum. Enn var Jón Eyþórsson leiðangursstjóri en aðrir íslenskir þátttakendur voru Sigurjón Rist og Árni Stefánsson. Leiðangurinn var á jöklinum í 5 vikur og náðist góður árangur þar sem fyrstu upplýsingar fengust um þykkt íssins víða á jöklinum. Mælingar voru hinsvegar það gisnar að lítið var hægt að segja um landslag undir jöklinum; upplýsingar um það komu síðar með íssjármælingum á 8.-10. áratug 20. aldar.

Staða rannsókna
Í dag eru jöklarannsóknir hér á landi stundaðar af Jarðvísindastofnun Háskólans, Vatnamælingum, Landsvirkjun og fleiri aðilum. Botn allra stærri jöklanna hefur verið kannaður með íssjármælingum og grundvallar upplýsingar fengist um eldfjöll, öskjur og önnur landform undir þeim. Afkoma Hofsjökuls, Langjökuls og Vatnajökuls hefur verið mæld reglulega um árabil. Umfangsmiklar mælingar á tengslum veðurs og afkomu hafa farið fram. Þær mælingar hafa m.a. verið hagnýttar í líkönum af viðbrögðum jöklanna við loftslagsbreytingum. Fylgst hefur verið með framhlaupum, jökulhlaup könnuð og áhrif jarðhita og eldgosa á jöklana rannsökuð. Rannsóknir á jöklaseti fyrir framan jöklana eru stundaðar bæði af innlendum og erlendum aðilum.
Auk eiginlegra jöklarannsókna fara fram umfangsmiklar rannsóknir á eldfjöllum undir jöklum. Hætta á jökulhlaupum og gjóskugosum veldur því að margir eiga töluvert undir því að virkt eftirlit sé með Kötlu, Grímsvötnum og fleiri eldfjöllum. Vöktun er einkum á hendi Veðurstofunnar og Vatnamælinga auk aðkomu Jarðvísindastofnunar. Rannsóknir á eldfjöllunum og eldvirkninni eru mikið stundaðar á Jarðvísindastofnun en allir ofangreindir aðilar koma að þeim. Jöklarannsóknafélagið hefur gegnt lykilhlutverki í rannsóknum á Grímsvötnum og hýsir einnig jarðskjálftamæla og síritandi GPS landmælingatæki í skálum sínum á Grímsfjalli.
Rannsóknir hafa verið drjúgur hluti umsvifa á Vatnajökli síðustu áratugi. Fullyrða má að umfang rannsókna muni aukast á næstu árum. Fjöldi erlendra vísindamanna sem starfa með einum eða öðrum hætti við rannsóknir á jöklinum eða við hann fer mjög vaxandi.

Fjallkirkja á Langjökli

Kirkjuból

Kirkjuból (1979) 6-12 manna
1180 m 64°43.880′ 19°53.650′ (WGS-84)

Esjufjöll

Esjufjöll

skáli I (1951) braggi fauk 1966

skáli II (1977) 6-12 manna fauk 1999

skáli III (2002) 6-12 manna

701 m 64°12.196′ 16°25.463′ (WGS-84)

Breiðá

Breiðá

Breiðá (1951) 6 manna braggi og bílageymsla
23 m 64°02.328′ 16°18.514′ (WGS-84)