Vorferð JÖRFÍ 30. maí – 7. júní

Vorferðin er með viðameiri rannsóknarleiðöngrum sem farnir eru hér á landi. Í henni er m.a. kannað ástand eldstöðva, jarðhitasvæða og jökullóna í Vatnajökli og afkoma vetrarins mæld. Vorferðin nú var með fjölmennara móti. Sú nýbreytni var að litlir hópar dvöldu við rannsóknir í Kverkfjöllum og á Goðahnjúkum auk meginhópsins sem hélt til á Grímsfjalli. Ferðin var án áfalla en veður var rysjótt og lítið hægt að vinna á jöklinum þriðjudag 3. júní og miðvikudag 4. júní.

Þátttakendur voru sjálfboðaliðar JÖRFÍ, vísindamenn frá Jarðvísindastofnun Háskólans, Vatnamælingum Orkustofnunar, Veðurstofunni, Landsvirkjun og Edinborgarháskóla. Hópurinn vann að eftirtöldum verkefnum:
– mælingu á vetarafkomu í Grímsvötnum og nokkrum fleiri stöðum
– mælingu vatnshæðar Grímsvatna
– könnun á gjóskulaginu úr gosinu 2004
– könnun á breytingum á jarðhita í Grímsvötnum og í Kverkfjöllum
– rannsóknum á Skaftárkötlum
– GPS landmælingum á jökulskerjum á vestanverðum Vatnajökli til að skoða kvikusöfnun og landlyftingu vegna rýrnunar Vatnajökuls
– kortlagningu jaðarurða við ofanverðra skriðjökla austast á Vatnajökli
– flutningi á vistum fyrir líffræðileiðangur í Esjufjöll
– eftirliti og viðhaldi á skálum JÖRFÍ á Vatnajökli

Nánar verður greint frá ferðinni í næsta fréttabréfi.

Horft yfir Hveradal í Kverkfjöllum í vorferð JÖRFÍ 2008:
Horft yfir Kveradal í Kverkfjöllum í vorferð JÖRFÍ 2008

Vetrarákoma mæld á Mýrdalsjökli

Á laugardaginn var fór stór hópur jöklamanna á 10 bílum í mælinga- og skemmtiferð á Mýrdalsjökul. Tilgangur ferðarinnar var að bora þrjár afkomuholur og njóta þess jafnframt að vera á jöklinum. Færið neðst á jöklinum var verulega þungt en ofar á honum var færið prýðilegt og ferðin sóttist vel. Veðrið hentaði vel til vinnu en síður til útsýnisferða. Það gekk á með éljum og slyddu en vindur var hægur og góður andi í hópnum. Vel gekk að bora holurnar þrjár og líkt og í fyrra varð sú dýpsta 12 metrar þegar borinn náði loks niður á sumarsnjó síðasta árs. Hinar tvær holurnar voru 9 og 10 m á dýpt.

Jöklarannsóknafélagið við mælingar á Mýrdalsjökli
Mælt á Mýrdalsjökli

Afkomumælingar á Mýrdalsjökli

Nálgast nú hin árlega ferð unglingadeildarinnar á Mýrdalsjökul. Í fyrra fór vaskur hópur á vegum deildarinnar og boraði af mikilli list allt niður á 12 metra dýpi. Að þessu sinni er stefnan sett á dagsferð aðra helgina í maí. Ferðin er kjörinn vettvangur til að kynnast starfsemi JÖRFÍ og nýir félagar og verðandi því boðnir sérstaklega velkomnir. Veður verður engu síðra en rjóminn í fyrra: Skráning hjá Hálfdáni – halfdana (hjá) gmail.com / 865-9551.

Grímsvötn

Í vinnslu.