Myndband af fyrirlestri Helga Björnssonar

Fyrirlestur Helga þriðjudaginn 20.10.

Fjarfundur JÖRFÍ þriðjudag 20. október kl. 20-21:
Helgi Björnsson – fyrirlestur JÖRFÍ: Ísland undir jökli
Aðgangur opnar kl. 19:45.

Hér er hlekkur á myndbandið: https://youtu.be/mSTqwJbpBxI.

Þriðjudaginn 20. október næst komandi kl. 20:00 mun Helgi Björnsson jöklafræðingur flytja erindi sem ber titilinn Ísland undir jökli. Eins og áður er erindið flutt rafrænt á Zoom en hlekkur á streymið verður sendur út samdægurs.

Ágrip fyrirlestursins Ísland undir jökli:

Frá miðjum áttunda áratug 20. aldar hefur landslag undir meginjöklum Íslands verið kannað með íssjármælingum; mældur er tíminn sem það tekur rafsegulbylgju að fara niður á botn jökuls. Alls hefur íssjáin verið dregin 16.000 km yfir jökul með snjóbílum, vélsleðum og jeppum. Að þessu verkefni hafa komið tugir jöklafara.
Niðurstöður þessara mælinga hafa nýst við ýmsar rannsóknir svo sem:
a) á ísforða jökla, ísflæði, viðbrögðum jökla við loftslagsbreytingum, rennsli jökulvatns til fallvatna, hlaup frá jökullónum og við eldsumbrot,
b) á jarðfræði Íslands, eldstöðvarkerfum og landmótun undir jöklum,
c) við mat á náttúruhamförum í jöklum,
d) við hönnun brúa yfir jökulvötn og nýtingu jökulvatns til virkjana.
Í erindinu verður lýst landi undir Vatnajökli, Langjökli, Hofsjökli og Mýrdalsjökli: öskjum, stöpum, móbershryggjum, hásléttum, dölum og ísfylltum trogum. Þótt allir íslenskir jöklar rýrni nú hratt mun ekkert okkar sjá allan botn þeirra á annan hátt en með íssjárgleraugum; allt á aðeins 45 mínútum!

Við hvetjum alla til að mæta á þetta spennandi erindi.

JÖRFÍ í Lestinni á Rás 1

Í tilefni 70 ára afmælis Jöklarannsóknafélagsins verður fjallað um félagið næstu fimmtudaga í Lestinni á Rás 1. Í pistlunum mun Anna Marsibil ræða við fólk um félagið, ferðir, rannsóknir, sovét og vatikanið. Pistlaröðin hefst á fimmtudaginn kemur 8. október með viðtali við Magnús Tuma, formann. Þættirnir verða aðgengilegir á hlaðvarpi Rúv og jafnvel lengri útgáfa viðtalanna á heimasíðu Jörfí. Pistlarnir eru afmælisgjöf Rúv til Jörfí. Allir að stilla á Rás 1 á fimmtudag kl. 17.03!

Fyrirlestur Snævarrs þriðjudaginn 29.9

Fjarfundur JÖRFÍ þriðjudag 29. september kl. 20-21:
Snævarr Guðmundsson – fyrirlestur JÖRFÍ: Í spor jöklamælingamanna á Breiðamerkursandi
Aðgangur opnar kl. 19:45.


Smellið á hlekkinn og fylgið leiðbeiningum inn á fundinn:
https://eu01web.zoom.us/j/64783134585?pwd=bDFqWXJDanRNM0V3ZEI4T1RESnp3dz09

Ágrip fyrirlestursins Í spor jöklamælingamanna á Breiðamerkursandi:

Í þessu erindi mun Snævarr Guðmundsson segja frá kortlagningu sinni á hopi Breiðamerkurjökuls, frá því að jökullinn var í hámarksstöðu í lok  19. aldar. Fyrsta nákvæma kortið af jöklinum var unnið af danska herforingjaráðinu í byrjun 20. aldar, en þá var Breiðamerkurjökull örlítið tekinn að hopa. Næst var svæðið kortlagt eftir loftmyndum sem ameríski herinn tók á árunum 1945-6 en á þeim tíma hafði jökullinn hopað talsvert á þeim fjóru áratugum sem liðið höfðu frá því að herforingjaráðskortin voru gefin út. Nokkru fyrr, eða á fjórða áratugnum fóru menn að fylgjast skipulegar með framvindunni og þá hófust m.a.sporðamælingar. Þeim hefur verið viðhaldið fram til okkar daga. Hop jökulsins, og Breiðamerkursandur var kortlagður nokkrum sinnum á 20. öld. Þessar kortlagningar byggðu á viðurkenndum aðferðum og fáanlegum gögnum á hverjum tíma. Margar af þeim, sérstaklega eftir miðja 20. öld, byggðu á loftmyndum. Nákvæmni korta batnaði því sífellt eftir því sem leið á öldina en á sama tíma var jökullinn alltaf að hopa. Í hverju nýju korti birti því land sem hafði komið undan hopandi jökli, og í sífellt skýrari dráttum. Árin 2010-2012 var Vatnajökull skannaður með leysigeislatækni (LiDAR) en afar lítil óvissa er í þeim gögnum, samanborið við fyrri aðferðir. Út frá ofangreindum upplýsingum gögnum, auk ýmissa annarra, t.a.m. gervitunglamyndum, ljósmyndum teknum í flugi eða af landi, frásögnum, rituðum heimildum og sporðamælingagögnum Jöklarannsóknafélagsins hefur hop Breiðamerkurjökuls nú verið rakið ítarlega á stórum svæðum. Í erindinu verður m.a. sagt frá þýðingu sporðamælinganna við að rekja þá atburðarás.

Fyrirlestraröð JÖRFÍ

Fyrirkomulagið verður eftirfarandi:  

  • Ágrip/stutt kynning á efninu og flytjandanum mun fara á vefsíðuna nokkrum dögum fyrir fund.   
  • Vefslóð inn á fyrirlesturinn verður sett á vefsíðu JÖRFÍ kvöldið áður en fundurinn fer fram.   
  • Fundur hefst stundvíslega kl. 20:00 á fundardaginn. 
  • Hver fyrirlestur verður 30-45 mínútur. 
  • Í kjölfarið koma umræður og fyrirspurnir áheyrenda og fyrirlesari svarar. 
  • Tilkynningar um ágrip og áminningar um fundi verða sendar í tölvupósti til félagsfólks. 

Vilji fólk kaffi og kökur þarf hver og einn að sýna þá fyrirhyggju að fá sér slíkar veitingar heima, enn hafa ekki fundist aðferðir til að senda matvæli með tölvupósti. 

Stjórn JÖRFÍ