Haustfundur og nýtt fréttabréf JÖRFÍ

Haustfundur Jöklarannsóknafélags Íslands verður haldinn þriðjudaginn 26. október kl. 20 í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands. Fundinum verður einnig streymt á netinu en frekari upplýsingar berast á vef félagsins er nær dregur.

Á fundinum mun Guðfinna Aðalgeirsdóttir kynna helstu niðurstöður er varða Ísland, jöklabreytingar og sjávarstöðubreytingar, úr nýjustu skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC). Eftir kaffihlé munu Hrafnhildur Hannesdóttir og Oddur Sigurðsson segja sögu sporðamælinga JÖRFÍ.

Nánar um efni fundarins í nýju fréttabréfi JÖRFÍ.

Árshátíð JÖRFÍ 2020 og 2021 – Tvöföld gleði

Árshátíð Jöklarannsóknafélagsins verður haldin með sérstökum hátíðarbrag þann 13. nóvember, 2021. Tilefnið er að fagna 70 (og 71 árs) afmæli félagsins.

Dagskráin hefst í Perlunni kl. 17 með opnun á sýningunni VORFERÐ sem fjallar um starfssemi félagsins og verður sýnd í “Dropanum“, sýningarrými Náttúruminjasafnsins á 2. hæð.

Þaðan verður gestum boðið uppá rútuferð á veislustaðinn sjálfan, sal Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar í Leirdalnum. Boðið verður upp á spennandi þriggja rétta matseðil, þar á meðal grænmetisrétti. Aðgengi að veislusalnum er mjög gott og nægt pláss til þess að ræða málin og dansa af sér skóna.

Takið daginn frá og pússið dansskóna, við hlökkum til að samfagna með ykkur öllum!

🕺

Árshátíðar- og sýningarnefndin

13. sept. ferð í Jökulheima aflýst

Ekkert verður af seinkaðri afmælis-sumarferð félagsins í Jökulheima þetta árið sökum covid og óvissu í kringum samkomutakmarkanir á undanförnum vikum og mánuðum.

Við stefnum ótrauð á veglega skemmtilega ferð í Jökulheima næsta sumar.

“Hörfandi jöklar” og jöklafréttabréf

Jöklafréttabréfið fyrir 2020 er komið út (það fimmta í röðinni) og komið á sinn stað á vef Veðurstofu Íslands frettabref-joklar-newsletter-glaciers-iceland-2020.pdf (vedur.is). Þar er greint frá helstu niðurstöðum jöklamælinga ársins 2020. Fréttabréfið er á vegum verkefnisins „Hörfandi jöklar“ og unnið í samvinnu Veðurstofu Íslands, Jöklahóps Jarðvísindastofnunar Háskólans, Náttúrustofu Suðausturlands og Vatnajökulsþjóðgarðs og fjármagnað af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Sumarferð JÖRFÍ 2021

Sumarferð JÖRFÍ verður farin í Jökulheima um Verslunarmannahelgina. Félagsmenn, vinir og fjölskyldur eru velkomin með í ferðina. Mætt er í Jökulheima föstudaginn 30. júlí og munum við dvelja þar til mánudagsins 2. ágúst.

Skrá þarf sig í ferðina fyrir 26. júlí, með tölvuskeyti á thorakarls@gmail.com eða í síma Þóru 866-3370. Við skráninguna þarf að taka fram hvort óskað sé eftir að gista í skála, eða hvort gist verði í tjaldi. Innifalið í hóflegu skráningargjaldi er gúllassúpu á föstudagskvöldi og lamba-grillveisla eitt helgarkvöldanna, göngu- og hjólaleiðsögn um leiðir sem henta öllum aldurshópum í nærsvæði Jökulheima, og dansiball á pallinum undir stjórn skífuþeytara hússins. Skráningargjaldið er kr. 3.000,- fyrir fullorðna, og greiða ber fyrir brottför á reikning: 525-26-110641, kennitala: 180653-2959.

Í ferðinni munum við fara yfir sögu Jökulheima og hvernig Jöklarannsóknafélagið byggði þessa bækistöð fyrir Vatnajökulsferðir. Við skoðum sögu hörfunar Tungnaárjökuls frá því að hann náði lengst fram í litlu ísöldinni um 1890 og hvernig jöklar og eldvirkni hafa mótað þetta eyðilega en ægifagra svæði sem fyrir 100 árum var einn afskekktasti og minnst þekkti hluti Íslands.

Farið verður á einkabílum og leitast verður við að veita þeim far sem ekki hafa bíl sem kemst með góðu móti inn í Jökulheima. Brottför er áætluð úr Reykjavík föstudaginn 30. júlí kl. 16 og lagt verður upp frá aðstöðu Veðurstofu Íslandas að Vagnhöfða 25. Fari fólk fyrr af stað og hyggur á að hitta hópinn annars staðar þá má gjarnan láta fararstjóra vita.

Á Tungnaáröræfum. Horft til Kerlinga í Vatnajökli, milli Tungaárjökuls og Sylgjujökuls. Mynd: Hlynur Skagfjörð Pálsson.