Fræðsluerindi á fjarfundi og ný vefsíða Jökuls

Miðvikudaginn 19. janúar verður fyrsta fjar-fræðsluerindi JÖRFÍ þetta árið. Eyjólfur Magnússon mun segja frá Grímsvatnahlaupi sem varð í lok árs 2021 og Kristín Jónsdóttir ásamt Sölva Þrastarsyni segja frá óhefðbundnum jarðskjálftamælingum með ljósleiðara á Grímsfjalli. Í upphafi fundarins verður nýr vefur tímaritsins Jökuls formlega opnaður og virkni hans kynnt.

Grímsvatnahlaup á aðventunni 2021: Í nóvember 2021 hófst jökulhlaup úr Grímsvötnum. Þá hafði tæpur rúmkílómetri af bræðsluvatni safnast fyrir í vötnunum frá síðasta hlaupi sem var haustið 2018. Ekki hafði safnast eins mikið í vötnin í 25 ár, þ.e. síðan í Gjálpargosinu 1996. Aldrei hefur áður verið fylgst eins vel með gangi Grímsvatnahlaups. Vatnsborð Grímsvatna er vaktað í tveimur GPS stöðvum sem eru staðsettar í fljótandi íshellu Grímsvatna og voru í beinu fjarskiptasambandi þannig að mælingarnar bárust jafnóðum og þær voru skráðar. Út frá sighraða íshellunnar, sem mældur var með nákvæmni upp á 1-2 cm á dag, var hægt reikna hversu hratt rann úr vötnunum. Þessar mælingar sýna að úrrennsli vatnanna óx úr fáeinum m3/s um miðjan nóvember í ~3500 m3/s að kvöldi 4. desember, eftir það minnkaði rennslið hratt og 7. desember höfðu vötnin líklega tæmst. Í erindinu verður farið yfir þessar mælingar og aðrar sem aflað var í hlaupinu. Í erindu verður einnig verður farið yfir þær breytingar sem orðið hafa í Grímsvötnum frá Gjálpargosinu til dagsins í dag.

Eyjólfur Magnússon er vísindamaður í jöklafræði við Jarðvísindastofnun Háskólans

Ljósleiðaraverkefni á Grímsfjalli: Í maí 2021 var farinn rannsóknarleiðangur á Grímsfjall í óhefðbundnar jarðskjálftamælingar þar sem plægður var 12 km langur og 0,5 cm breiður ljósleiðarakapall, um 0,5 m ofan í snjóinn, frá Grímsfjalli og ofan í Grímsvötn. Að leiðangrinum stóðu vísindamenn frá ETH háskólanum í Sviss og Veðurstofu Íslands, með aðstoð Hjálparsveita skáta í Reykjavík og JÖRFÍ félaga. Síðastliðin ár hefur orðið bylting í jarðskjálftafræði þar sem sýnt hefur verið fram á hvernig nýta má ljósleiðara til að mæla jarðskjálfta í miklu hærri upplausn en áður. Aðferðin notar ljósleiðara ásamt sérútbúinni tölvu sem sendir laserpúlsa í gegnum ljósleiðara og nemur endurkast frá þeim. Í Grímsvatnaverkefninu, sem kallað hefur verið DAS-BúmmBúmm, voru gerðar mælingar á 8 m fresti í ljósleiðaranum, eða í heildina um 1550 mælingar (15 sinnum fleiri en allir jarðskjálftamælar á Íslandi!). Auk þess að mæla margfalt fleiri smáskjálfta en sjást í hefðbundnum mælingum, sýndi tilraunin t.a.m. samfelldan titring á þeim hluta ljósleiðarans sem lá ofan á íshellu Grímsvatna. Í fyrirlestrinum verður sagt frá leiðangrinum og fyrstu niðurstöðum gagnaúrvinnslunnar.

Kristín Jónsdóttir er jarðskjálftafræðingur og hópstjóri Náttúruvárvöktunar Veðurstofu Íslands og Sölvi Þrastarson er í doktorsnámi í jarðskjálftafræði við ETH í Zurich í Sviss.

Vísindatímaritið Jökull: Frá 1951 hafa birst yfir 400 ritrýndar vísindagreinar í Jökli. Ritið er því stærsta safn fræðigreina sem til er um jarðfræði Íslands og hefur mikla þýðingu fyrir jarðvísindi hér á landi. Undanfarið ár hefur verið unnið að því að koma Jökli í rafrænt form með þróun heimasíðu sem gerir notendum kleift að leita í greinasafninu eftir ýmsum leiðum.

66°N styrkir JÖRFÍ

Á morgun, föstudag 26. nóvember, munu 25% af veltu í vefverslun 66°Norður renna til Jöklarannsóknafélagsins.  Styrkurinn verður notaður til að mæta kostnaði við ferðir til afkomumælinga á Eyjafjallajökli og Tindfjallajökli, en afkoma hefur ekki verið mæld á þessum jöklum hingað til. 

Stefnt er á að félagið standi fyrir ferð/ferðum til að koma þessu í framkvæmd næsta vor og sumar.  Nánari upplýsingar má finna hér:  https://www.66north.com/is

Auður Ólafsdóttir – jarðarför 25. nóvember

Auður Ólafsdóttir, heiðursfélagi JÖRFÍ, lést þann 11. nóvember síðastliðin, 87 ára að aldri. Auður fór í sína fyrstu vorferð á Vatnajökul 1959 og var virk í félaginu alla tíð síðan, með þátttöku í ferðum og margvíslegu innra starfi.

Jarðarförin hefst kl. 13 en vegna samkomutakmarkana verða aðeins nánustu ættingjar og vinir viðstaddir. Athöfninni verður streymt á https://www.mbl.is/andlat/

Jöklarannsóknafélagið minnist Auðar með virðingu og þökkum og vottar Stefáni Bjarnasyni, eftirlifandi eiginmanni hennar og heiðursfélaga JÖRFÍ innilega samúð.

Frestun árshátíðar JÖRFÍ

Í fyrra varð Covid til þess að urðum við að fresta öllum hátíðarhöldum vegna 70 ára afmælis félagsins. Horfur hafa lengst af verið góðar með hátíð í haust. En nú ríður ný bylgja yfir og veldur því að takmarkanir taka aftur gildi sem kveða á um grímuskyldu og skertan opnunartíma. Félagið sér því ekki annan kost en að fresta um óákveðinn tíma árshátíðinni sem átti að vera laugardaginn 13. nóvember. Ekki er hægt að segja til um á þessari stundu hvenær fært verður að halda langþráða árshátíð, en það verður gert við fyrstu hentugleika, vonandi ekki löngu eftir áramótin.

Engin frestun verður á opnun sýningar í Perlunni þennan sama dag, 13. nóvember, enda áhrif hertra reglna á þann atburð ekki stórvægilegar. Við hvetjum því félagsfólk eindregið til að mæta þar á laugardag, en nánari upplýsingar berast síðar.