Ný stjórn JÖRFÍ og nýtt fólk í nefndir

Aðalfundur Jöklarannsóknafélagsins var haldin 22. febrúar síðastliðinn í Öskju, Náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands . Aðalfundarstörf fóru fram með hefðbundnum hætti eins og fyrri ár. Fundarstjóri var Tómas Jóhannesson og fundarritari Finnur Pálsson en gerður var góður rómur að þeirra störfum. Skýrsla stjórnar var flutt og endurskoðaðir reikningar lagðir fram. Magnús Tumi Guðmundsson hefur verið formaður félagsins í 24 ár en gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Hálfdán Ágústsson sem gegnt hefur mörgum hlutverkum í stjórn félagsins undanfarin ár gaf  ekki kost á sér til áframhaldandi starfa. Honum eru þökkuð góð störf fyrir félagið.  

Stjórn félagsins fyrir starfsárið 2022-2023 er eftirfarandi:

Andri Gunnarsson, formaður, Hrafnhildur Hannesdóttir, varaformaður, Guðfinna Aðalgeirsdóttir, ritari, Sjöfn Sigsteinsdóttir, gjaldkeri og Sigurður Vignisson, meðstjórnandi.

Varastjórn skipa Eyjólfur Magnússon, Kristín Jónsdóttir, Hlynur Axelsson og Þóra Karlsdóttir.

Stjórn félagsins vill koma á framfæri sérstökum þökkum til Magnúsar Tuma sem hefur veitt félaginu forstöðu í hartnær aldarfjórðung. Hann hefur sinnt málefnum félagsins með metnaðarfullum hætti alla sína stjórnartíð og haldið við þeim vanda og virðingu sem félagið hefur staðið fyrir. Magnús Tumi tók við keflinu í framhaldi af því að gosstöðvar í Vatnajökli létu mikið á sér kræla. Á næstu árum og áratugum voru gerðar miklar rannsóknir á samspili elds og íss og Magnús Tumi náði að virkja marga framhaldsnemendur og félagar JÖRFÍ fengu öflugt tækifæri til þess að vera þátttakendur í margvíslegum rannsóknum tengdum eldsumbrotunum.

Brátt mun stjórn skipa í nefndir á vegum félagsins og óskar hún eftir því að áhugasamir einstaklingar hafi samband. Endurnýjun í skálanefnd er fyrirsjáanleg og þau sem hafa áhuga á því að starfa við viðhald og þróun á skálum félagsins eru endilega hvött til að hafa samband við stjórn. Mörg spennandi hlutverk standa til boða. Einnig er verið að móta öfluga netnefnd sem mun halda utan um heimasíðu og  samfélagsmiðla félagsins.

Félagsgjöld JÖRFÍ hafa nú verið hækkuð lítillega frá síðasta ári. Félagsgjöldin verða kr. 8.000,- á þessu ári en nemenda- og fjölskyldugjald verður kr. 4.000,-. Greiðsluseðlar verða sendir út á næstunni. 

Við hvetjum alla til að hafa samband við stjórn í tölvupósti, stjorn@jorfi.is 

Stjórn JÖRFÍ