66°N styrkir JÖRFÍ

Á morgun, föstudag 26. nóvember, munu 25% af veltu í vefverslun 66°Norður renna til Jöklarannsóknafélagsins.  Styrkurinn verður notaður til að mæta kostnaði við ferðir til afkomumælinga á Eyjafjallajökli og Tindfjallajökli, en afkoma hefur ekki verið mæld á þessum jöklum hingað til. 

Stefnt er á að félagið standi fyrir ferð/ferðum til að koma þessu í framkvæmd næsta vor og sumar.  Nánari upplýsingar má finna hér:  https://www.66north.com/is

Auður Ólafsdóttir – jarðarför 25. nóvember

Auður Ólafsdóttir, heiðursfélagi JÖRFÍ, lést þann 11. nóvember síðastliðin, 87 ára að aldri. Auður fór í sína fyrstu vorferð á Vatnajökul 1959 og var virk í félaginu alla tíð síðan, með þátttöku í ferðum og margvíslegu innra starfi.

Jarðarförin hefst kl. 13 en vegna samkomutakmarkana verða aðeins nánustu ættingjar og vinir viðstaddir. Athöfninni verður streymt á https://www.mbl.is/andlat/

Jöklarannsóknafélagið minnist Auðar með virðingu og þökkum og vottar Stefáni Bjarnasyni, eftirlifandi eiginmanni hennar og heiðursfélaga JÖRFÍ innilega samúð.

Frestun árshátíðar JÖRFÍ

Í fyrra varð Covid til þess að urðum við að fresta öllum hátíðarhöldum vegna 70 ára afmælis félagsins. Horfur hafa lengst af verið góðar með hátíð í haust. En nú ríður ný bylgja yfir og veldur því að takmarkanir taka aftur gildi sem kveða á um grímuskyldu og skertan opnunartíma. Félagið sér því ekki annan kost en að fresta um óákveðinn tíma árshátíðinni sem átti að vera laugardaginn 13. nóvember. Ekki er hægt að segja til um á þessari stundu hvenær fært verður að halda langþráða árshátíð, en það verður gert við fyrstu hentugleika, vonandi ekki löngu eftir áramótin.

Engin frestun verður á opnun sýningar í Perlunni þennan sama dag, 13. nóvember, enda áhrif hertra reglna á þann atburð ekki stórvægilegar. Við hvetjum því félagsfólk eindregið til að mæta þar á laugardag, en nánari upplýsingar berast síðar.