Sumarferð JÖRFÍ

Jöklarannsóknafélagið ráðgerir sumarferð á Okjökul fyrstu helgina í júlí (5.-7.) Skráning í ferðina fer fram á netfangið: sumarferd hjá gmail.com, eða hjá
Hálfdáni Ágústssyni í síma 8659551.

Flestir kannast við Okið, sem er grágrýtisdyngja með toppgíg, áþekk Skjaldbreið. Dyngjulögunin blasir vel við af Kaldadal en úr Borgarfjarðardölum ber meira á Oköxlinni, sem er móbergsfjall utan í dyngjunni. Jökullinn á Oki hefur látið mjög á sjá á undanförnum árum og hefur lón verið að myndast í toppgígnum, þar sem hluti jökulhettunnar lá áður yfir.

Áætlað er að ganga frá Kaldadal upp á hæsta koll Oksins og litast um kringum lónið nýja. Af Okinu er mikilfenglegt útsýni til Langjökuls, Eiríksjökuls og Þórisjökuls. Síðan verður gengið norður af dyngjunni og niður í tjaldstað við Hringsgil, vestarlega í landi Húsafells. Í Hringsgili verður slegið upp grillveislu um kvöldið. Á sunnudeginum verður ekin fáfarin jeppaslóð til vesturs meðfram Reykjadalsá og ef tími vinnst til mætti einnig skoða nýja sýningu um Snorra Sturluson í Reykholti.