Árshátíð JÖRFÍ laugardaginn 8. nóvember 2008

Lagt verður upp frá nágrenni Select við Vesturlandsveg, hvar Ölgerð Egils Skallagrímssonar býður til fordrykkjar í húsakynnum sínum stundvíslega kl. 17.30. Að þeirri stund lokinni verður haldið með langferðabíl á vit ævintýranna þar sem okkar bíður veislumatur og dansiball með lifandi tónlist í þéttbýli innan Stór-Kópavogssvæðisins…

Fólk ber ábyrgð á eigin veigum til hátíðarhaldanna sem koma má fyrir í til þess ætluðum álkistum sem verða til reiðu í fjallabílum fyrir utan Ölgerðina. Fyrir þá sem velja léttvín, gæti hvítvín verið viðeigandi.

Miðinn kostar 4.500,- íslenskar nýkrónur og fæst í Öskju (hjá Hrafnhildi: 849-7824 eða Finni: 525-4936), á Dalbrautinni (hjá Valda rakara: 568-6312) og í Orkugarði (hjá Hálfdáni veðurfréttamanni: 865-9551).

Árshátíð 2008

  • Forsmekkurinn að myndagetrauninni: Hvaða jöklamælingamenn eru á myndinni og hvenær er hún tekin?

Haustfundur JÖRFÍ 2008

Haustfundur Jöklarannsóknafélags Íslands verður haldinn 21.október næstkomandi klukkan 20:00 í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands.

Erindi: „Grímsvatnagosið 2004: Gjóska, útbreiðsla og upphleðsla í Grímsvötnum.“ Björn Oddsson.

Myndasýning: Breytingar á Grímsvötnum á undanförnum árum. Magnús Tumi Guðmundsson.

Haustannir á Grímsfjalli

Síðustu viku septembermánaðar dvöldust fimm vísindamenn frá Edinborgarháskóla á Grímsfjalli. Tilgangurinn var að æfa notkun radartækja sem lesa ís og öskulög í jökli sem og jökulbotn og hugsanlega ísbráð neðanfrá. Hlynar tveir, félagar í JÖRFÍ voru fylgdar og aðstoðarmenn Edinborgara á tveimur bílum, Jöklarauð JÖRFÍ og jeppa Hlyns Snæland.

Í upphafi leiðangurs olli flughálka á Skálafellsjökli nokkrum töfum eða allt þar til Bjarni „jöklabóndi“ Skarphéðinsson hafði með snjótroðara sínum opnað leiðangurstækjum braut í gegnum sprunguhaft á jöklinum. Ökufæri var með mestu ágætum eftir það. Degi tvö var eytt í „sovéti“ á Grímsfjalli en á laugardagsmorgni hafði lægt og rofað nægilega til svo að hægt væri að stika út línu yfir annan ketilinn í norðuröskju Grímsvatna. Þennan dag og næstu tvo voru gerðar radarmælingar á katlinum en seinnipart mánudags var svo pakkað saman og haldið til byggða og var sú ferð tíðindalaus.

Á vatnajökli við radarmælingar með Bretum í september 2008

Á sama tíma stóð yfir haustmælingaferð LV og Raunvísindastofnunar og voru þáttakendur í henni fjórir. Allt valinkunnir Jöklafélagsjaxlar. Heldur gerði norðangarri og snjókoma mönnum lífið leitt í þeim leiðangri sem gekk þó stóráfallalaust.

Hlynur Skagfjörð Pálsson