Barnabók um jökla, ís og loftslagsmál

Helgi Björnsson jöklafræðingur og heiðursfélagi JÖRFÍ hefur skrifað barnabók um jökla, ís og loftslagsmál. Tilvalin til jóla- og afmælisdaga til barna og allra sem eru ungir í anda. Félagar í JÖRFI mega leita til Jóns Gunnars Þorsteinssonar hjá Vísindavef HÍ ( jongth@hi.is) og fengið bókina á kr. 3.150. Hann situr á 3. hæð í Tæknigarði.

Ferðir GJÖRFÍ í vetur og til sumars 2016

Hér að neðan er dagskrá GJÖRFÍ, gönguhóps Jöklarannsóknafélagsins, til sumars 2016. Gönguferðirnar eru á allra færi og eru að jafnaði farnar annan hvern þriðjudag kl. 18:00. Í forsvari fyrir hópnum eru Ástvaldur Guðmundsson, Jósef Hólmjárn og Þóra Karlsdóttir. Munið ennisljósin!

15. sept. 2015 Mosfell Select Vesturlandsv.
29. sept. 2015 Elliðavatn, Heiðmörk Select Vesturlandsv.
13. okt. 2015 Hafravatn Select Vesturlandsv.
27. okt. 2015 Guðmundarlundur Vífilsstaðir
10. nóv. 2015 Laugardalur Áskirkja
24. nóv. 2015 Elliðaárdalur Toppstöðin
8. des. 2015 Rauðavatn Select Vesturlandsv.
22. des. 2015 Varmá Álafoss Select Vesturlandsv.
5. jan. 2016 Öskjuhlíð Perlan
19. jan. 2016 Fossvogsdalur Borgarspítalinn að austan
2. feb.2016 Grandi Þúfa Sjóminjasafnið bakatil
16. feb. 2016 Nauthólsvík Nauthóll
1. mars 2016 Kópavogsdalur Digraneskirkja
15. mars 2016 Heiðmörk Vífilstaðahlíð Heiðmerkurhlið
29. mars 2016 Úlfarsfell Skógrækt, Hamrahlíð
12. apr.2016 Hvaleyrarvatn N1 Hafnarfirði
26. apr. 2016 Garðaholt og Hleinar Hrafnista Hafnarfirði
10. maí 2016 Dyradalir Select Vesturlandsv.
24. maí 2016 Straumur N1 Hafnarfirði
7. júní 2016 Dyradalir Select Vesturlandsv.
21. júní 2016 Kringum Helgafell N1 Hafnarfirði

Ferðin í Holuhraun og Öskju 7.-9. ágúst

Enn eru nokkur pláss laus. Áætlað er að fólk mæti á Mývatn á fimmtudagskvöldinu 6. ágúst. Farið verður í rútu úr Mývatnssveit á föstudagsmorgni. Gist verður í skála og tjöldum í Herðubreiðarlindum í tvær nætur. Áætlað er að fara einn dag að nýja hrauninu og annað daginn að svipast um í Öskju, en þar varð mikið berghlaup í júlí á síðasta ári. Á flæðunum sunnan Öskju verður nýja hraunið skoðað en það er það stærsta sem myndast hefur á Íslandi síðan í Skaftáreldum. Það teygir sig yfir 18 km frá gígunum langleiðina austur að Svartá. Upp úr hrauninu stíga gufumekkir þar sem það rann yfir lindasvæði og undan jaðrinum renna volgir lækir. Í ferðinni verða þessir staðir skoðaðir og hugað að gígum, hraunbrúnum og spáð í hvernig svæðið muni þróast eftir þessar miklu landbreytingar. Fararstjóri er Magnús Tumi Guðmundsson.

Við munum gista í Herðubreiðarlindum. Nokkur pláss eru laus í skála en aðrir munu gista í tjöldum. Þáttökugjald er 15.000 kr. en það rennur upp í kostnað við rútuna, kol í sameiginlegt grill seinna kvöldið. Skála og gistigjöld borgar hver fyrir sig. Þeir sem vilja vera í skála eru beðnir að láta vita, því aðeins er pláss fyrir hluta hópsins í húsi. Hver kemur með sitt nesti, m.a. eitthvað á grillið á laugardagskvöldinu. Þeir sem ekki hafa þegar tilkynnt þátttöku geta gert það á fyrir föstudag 24. júlí með tölvupósti (mtg hjá hi.is eða thorakarls hjá gmail.com).

ferðanefndin