Sumarferðir JÖRFÍ í júlí og ágúst

Sumarferð
Um næstu helgi, 3.-5. júlí, verður sumarferð JÖRFÍ farin í uppsveitir Borgarfjarðar. Tjaldað verður á föstudagskvöldi í Hringsgili í landi Húsafells. Veðurspá er hagstæð en snjóalög á Ok-inu og ófærð á Kaldadal koma í veg fyrir fyrirhugaða Ok-göngu. Fararstjóri ferðarinnar, Þorsteinn Þorsteinsson mun þess í stað leiða gönguferð um aðrar slóðir á laugardegi og svo verður farið í Víðgelmi á sunnudagsmorgni (kr. 3.000,-). Verið er að athuga með mögulega skoðunarferð í ísgöngin í Langjökli en það er enn óljóst. Vinsamlegast tilkynnið um þátttöku með tölvuskeyti til Hálfdáns Ágústssonar í netfanginu: halfdana hjá gmail.com.

Ágústferð
Þeir sem ætla að taka þátt í skemmtiferð JÖRFÍ í ágúst að Dyngjusandi þurfa að skrá sig við fyrsta tækifæri, og í síðasta lagi fyrir miðvikudaginn 8. júlí. Ef næg skráning fæst verður farið í rútu frá Mývatnssveit en annars verða ferðaplön með öðru sniði. Að öðru leyti er vísað í fyrri auglýsingu:

Jöklarannsóknafélagið fer 7.-9. ágúst í skemmtiferð inn á Dyngjusand að skoða nýja hraunið norðan Vatnajökuls. Ferðalangar munu hittast í Mývatnssveit og fara þaðan í rútu að morgni föstudags en komið verður aftur tilbaka á sunnudegi. Gert er ráð fyrir að gista í Herðubreiðarlindum og þaðan verður haldið í skoðunarferðir um nýja hraunið og Öskju. Nánari upplýsingar berast síðar, þ.m.t. varðandi kostnað og aðra tilhögun. Magnús Tumi verður fararstjóri ferðarinnar en Þóra Karlsdóttir svarar fyrirspurnum og tekur við skráningum í síma 8663370 og í netfanginu: „thorakarls hjá gmail.com“.


Sumarferð á Ok-ið og ágústferð að nýja hrauninu

Ágústferð
Jöklarannsóknafélagið fer 7.-9. ágúst í skemmtiferð inn á Dyngjusand að skoða nýja hraunið norðan Vatnajökuls. Ferðalangar munu hittast í Mývatnssveit og fara þaðan í rútu að morgni föstudags en komið verður aftur tilbaka á sunnudegi. Gert er ráð fyrir að gista í Herðubreiðarlindum og þaðan verður haldið í skoðunarferðir um nýja hraunið og Öskju. Nánari upplýsingar berast síðar, þ.m.t. varðandi kostnað og aðra tilhögun. Magnús Tumi verður fararstjóri ferðarinnar en Þóra Karlsdóttir svarar fyrirspurnum og tekur við skráningum í síma 8663370 og í netfanginu: „thorakarls hjá gmail.com“.

Sumarferð
Jafnframt er minnt á áður auglýsta sumarferð en afráðið hefur verið að gera lokatilraun við Ok-ið eftir að aftakaveður setti slík plön tvívegis úr skorðum. Eins og jafnan er ferðin fyrirhuguð fyrstu helgina í júlí (3.-5.). Verði veðurguðirnir okkur enn óhliðhollir þá verður ferðaáætlun breytt og haldið í Þakgil undir Mýrdalsjökli.


Vorfundur og nýtt fréttabréf

Vorfundur Jöklarannsóknafélags Íslands verður haldinn næstkomandi þriðjudag, 28. apríl, í Öskju. Á fundinum flytur Snorri Baldursson erindi um landnám lífs í nýju landi, m.a. við Vatnajökul, og Ragnar Th. Sigurðsson sýnir myndir frá umbrotunum í Holuhrauni.

Nánar um fundinn í nýútkomnu fréttabréfi JÖRFÍ sem aðgengilegt er hér á vef félagsins: „Fréttabréf apríl 2015″.


Háfjallafundur í Eldborgarsal Hörpu 1. mars – ágóði rennur til jöklarannsókna

Sunnudagskvöldið 1. mars verður Háfjallafundur í Eldborgarsal Hörpu. Um er að ræða samstarfsverkefni Vina Vatnajökuls, FÍ, FÍFL og 66°Norður.

Þarna heldur fyrirlestur einn mesti fjallagarpur heims, David Breashers, en hann var staddur á Everest þegar 8 fjallgöngumenn létu lífið í stormi vorið 1996. Greint var frá þessum atburði í metsölubókinni Into thin Air eftir John Krakauer en Baltasar Kormákur er einmitt að leggja síðustu hönd á kvikmynd sína um þessa atburði og verður myndin frumsýnd næsta haust. David og Baltasar munu báðir rekja þessa mögnuðu sögu og sýna einstæðar myndir af fjallinu.

Einnig verður fyrirlestur um bráðnun jökla í Himalaya og Tómas Guðbjartsson, sem á sæti í stjórn Vinum Vatnajökuls og FÍ og Ólafur Már Björnsson, læknar, kynna fjallaskíðaferðir á hálendi Íslands og áform um gönguleið í kringum Vatnajökul.

Loks mun Tómas Jóhannesson jöklafræðingur kynna vef JÖRFÍ, spordakost.jorfi.is sem geymir upplýsingar um hreyfingar jökulsporða á Íslandi en þetta verkefni er styrkt af Vinum Vatnajökuls.

Kaupa verður miða fyrirfram á http://www.harpa.is. Miðaverð er kr. 1000,- og rennur ágóðinn óskiptur til jöklarannsókna á Íslandi.

Sjá nánari upplýsingar á: https://www.66north.is/hafjallakvold/


Aðalfundur og nýtt fréttabréf

Aðalfundur Jöklarannsóknafélags Íslands verður haldinn í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands, þriðjudaginn 24. febrúar kl. 20:00. Að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum mun Alexander Jarosch segja frá notkun fjarstýrðra flygilda við jöklarannsóknir, m.a. á Breiðamerkurjökli.

Nánar um efni aðalfundar í nýju fréttabréfi Jöklarannsóknafélagsins.


GJÖRFÍ til sumars 2015

Hér að neðan er dagskrá GJÖRFÍ, gönguhóps Jöklarannsóknafélagsins, fram á mitt sumarið 2015. Gönguferðirnar eru á allra færi og eru að jafnaði farnar annan hvern þriðjudag kl. 18:00. Í forsvari fyrir hópnum eru Ástvaldur Guðmundsson, Jósef Hólmjárn og Þóra Karlsdóttir. Munið ennisljósin!

Dags. Áfangastaður Brottför
3. feb. Vatnsmýri / Tjörnin Askja
17. feb. Grandi – Þúfa Sjóminjasafnið
3. mars Fossvogsdalur Borgarspítali austanmegin
17. mars Rauðavatn Morgunblaðshúsið
31. mars Álftanes Gerðasafn
14. apríl Gróttuviti Við Gróttu
28. apríl Vífilstaðahlíð Heiðmerkurhlíð sunnanmegin
12. maí Geldinganes Við eyðið
26. maí Kringum Helgafell Gerðasafn / Kaldársel
9. júní Jósefsdalur / Eldborgir Select Vesturlandsvegi
23. júní Straumsvík Gerðasafn / Straumur
7. júlí Ölkelduháls / Klambragil Select Vesturlandsvegi